Af síðustu metrunum

4. ágúst 2008

Jæja, þá er loksins komið að síðustu færslunni, bráðum tveimur mánuðum eftir að við lentum á Keflavíkurflugvelli. Svona verður maður værukær þegar heim er komið. Við undum hag okkar ágætlega hjá Helga Birgi (föðurbróður Kristínar) og Tatjönu í Uppsala í Svíþjóð. Þau eru að gera upp gamalt hús og að sjálfsögðu lögðum við hönd á plóginn. Ottó braut niður eina eldhúsinnréttingu og svo hreinsuðum við klappir í bakgarðinum af mosa, grasi og trjárótum. Það var hressandi að komast í smá vinnu hafandi ekki gert handtak í fimm mánuði. Þegar við vorum ekki í vinnu skoðuðum við okkur um í Uppsala. Bærinn er um 70 km norður af Stokkhólmi og er gamalgróinn háskólabær. Hann er ekkert sérlega stór en þar búa tæplega 200.000 þúsund manns. Þar er mjög gaman að rölta um og skoða bæinn. Stærstu kirkju á Norðurlöndunum er að finna í Uppsala, saga hennar er ansi löng en bygging hennar hófst á 13. öld. Uppsala er því mjög gamall bær með ríka sögu. Háskólinn var stofnsettur 1477 og er því einn elsti skóli á Norðurlöndunum. Þar lærðu menn á borð við Carl von Linné (sem flokkaði lífríkið) og Anders Jonas Ångström (en við hann er atómmælieiningin Ångström kennd). I bænum er náttúrulega ekki þverfótað fyrir stúdentum og öðru skólafólki sem lífgar mjög uppá bæjarbraginn. Í Uppsala var því mjög gaman að rölta um og skoða, setjast svo niður og borða kíló af kirsu- og jarðarberjum eða inn á kaffihús og skoða mannlífið í þrjátíu stiga hita.

Að sjálfsögðu gerðum við verslanaferðir til Stokkhólms og litum m.a. við hjá þeim Hennes & Mauritz eins og góðum Íslendingi sæmir. Alfreð (pabbi Kristínar) kom svo út til okkar 5. júní. Við þrjú gerðum ferðir um Stokkhólm. Skoðuðum Vasa safnið sem hýsir samnefnt skip. Það sökk í jómfrúarferð sinni þann 10. ágúst 1628 rétt fyrir utan höfnina í Stokkhólmi. Því var svo bjargað 1961 og er nú almenningi til sýnis. Við röltum líka um Skansen. Fylgdumst með glerblásurum, trésmíðameisturum, þjóðdansadönsurum, vísundum, skógarbjörnum og úlfum. Við röltum líka um gamla bæinn, fórum í kaffi til konungshjónanna og fylgdumst með á þingpöllum á sænska þinginu. I hitanum fórum við í siglingu um sundin í Stokkhólmi.

Orðin heimavön sýndum við Alfreð Uppsala. Helgi Birgir leiddi okkur um ganga rannsóknastofu sinnar í Biomedicinske Center háskólans í Uppsala og reyndi eftir fremsta megni að koma okkur í skilning um hvað það nú væri nákvæmlega sem hann rannsakaði og ynni að. Það var ógurlega gaman. Saman fórum við svo fimm á baðströnd í blíðunni sem svipaði um margt til þeirra taílensku. Vatnið var þó heldur kaldara.

Við flugum svo heim frá Stokkhólmi 9. júní og lentum á Keflavíkurflugvelli um kaffileytið sama dag.

Þá höfðum við verið á ferðalagi í 157 daga og lagt að baki ríflega 40.000 km. Við gistum á 35 misgeðslegum hótelum/farfuglaheimilum og borðuðum á rúmlega 200 veitingastöðum. í tölvupóstskeytum mæðra okkar vorum við vinsamlegast beðin um að gæta okkar 51 sinni.

Fyrir þá sem hyggja á langferðir í útlandinu:

Það er að ýmsu að hyggja áður en lagt er upp í langför sem þessa. Þar er helst að nefna vegabréfsáritanir og bólusetningar. Vegabréfsáritanir í sum lönd þarf að sækja um með góðum fyrirvara. Við þurftum t.d. að senda vegabréfin okkar til Osló til að fá áritun inn í Indland. Allar upplýsingar um vegabréfsáritanir eru á þessari síðu: http://www.utanrikisraduneyti.is/ferdamenn. Sumum bóluefnum þarf að sprauta í mann nokkrum mánuðum áður en maður fer inn í landið og stundum þarf fleiri en eina sprautu, t.d. við japanskri heilabólgu og lifrabólgu. Ferlið tekur þá nokkra mánuði. Upplýsingar um bólusetningar eru á heimasíðu landlæknisembættisins: http://landlaeknir.is/pages/859.

Við tókum ýmislegt með okkur. Af því helsta má nefna:
• Góðan, stóran, slitsterkan og þægilegan bakpoka. Hann er lykilatriði.
• Silkisvefnpoka. Þeir eru mjög hentugir þegar rúmföt eru ekki til staðar eða eru skítug.
• Ferðahandklæði. Þau eru nauðsynleg þar sem ekki eru handklæði í boði á öllum gististöðum. Okkar voru létt, fyrirferðarlítil og fljótþornandi.
• Ullarnærföt. Við bjuggumst ekki við að nota þau fyrr en í Síberíu en þau komu sér vel á köldum indverskum janúarkvöldum, í eyðimörkinni að næturlagi og í fjöllunum í Nepal!
• Góðir skór eru algjörlega nauðsynlegir. Við tókum með okkur bæði sandala og létta gönguskó.
• Svissneskur vasahnífur, því það tilheyrir og er töff!
• GSM sími. Til að vera í sambandi. Líka öryggistæki ef við hefðum týnt hvort öðru. Sem gerðist reyndar bara einu sinni og þá var hvorugt okkar með símann á sér.
• GPS tæki. Kom sér oft vel til að rata og svo var gaman að reikna út fjarlægðir.
• Eyrnatappar. Þeir koma sér vel í næturlestum og í hávaðasömum hverfum fyrir svefninn.
• Innanklæðaveski. Fyrir peninga, vegabréf og greiðslukort.

Eftirfarandi tróðum við í sjúkrakassann: Breiðvirkum sýklalyfjum, verkjastillandi, hitalækkandi og bólgueyðandi töflum, sótthreinsandi spreyi, sáraumbúðum (plástrum, grisjum, heftiplástrum), hælsærisplástrum, stopp-töflum (við skyndiniddara), sólarvörn, aloe vera geli, fucidin smyrsli til að setja á smáskeinur og sýkingar, acidophilus fyrir magann, strepsils við hálsbólgu, nefspreyi, malaríulyfi, saltlausn til að leysa í vatni til að koma jafnvægi á saltbúskap líkamans eftir t.d. niðurgang, klórtöflum til að hreinsa drykkjarvatn, skordýrafælu, flísatöng, skæri, naglaklippur, smyrsli á skordýrabit og önnur lyf sem við notum s.s. astmalyf.

Við tókum tvennar léttar buxur, stuttbuxur, fullt af brókum og sokkum, slatta af bolum, a.m.k. eina nokkuð hlýja peysu, regnstakk og húfu. Þá er innihald bakpokans okkar nánast upptalið, fyrir utan hluti eins og sápu, sjampó, tannbursta og tannkrem.

Nánast allsstaðar er hægt að kaupa bækur á ensku og við gerðum mikið af því. Það er talsvert ódýrara og betra fyrir bakið en að burðast með þær frá Íslandi. Þá er gott að hafa með sér skrifblokk/dagbók til að punkta hjá sér og spilastokk. Spilastokkurinn okkar kom sér gríðarlega vel á löngum lestarferðum og uppi í nepalska fjallaþorpinu þar sem við eyddum löngum stundum í að spila rommí. Mikilvægasta afþreyingargræjan er þó líklega iPodinn, en svoleiðis græju ættu allir að taka með sér í ferðalag sem þetta. Hann er bráðnauðsynlegur í indverskum rútum þar sem annar hver maður spilar hindi-bollywood tónlist í símanum sínum.

Við þökkum kærlega fyrir okkur og vonum að lesendur hafi haft gagn og gaman af skrifum okkar.

Bestu kveðjur,

-Kristín og Ottó5 ummæli við „Af síðustu metrunum“

 1. anita forvitna ritaði:

  hvar keyptuð þið silkisvefnpokann og ferðahandklæðið? :)

 2. Ebba Karen ritaði:

  heil og sæl.
  Ég verð að viðurkenna að ég hef verið að fylgjast með ykkur, en aldrei kvittað. Lélegt ég veit.
  En annars vil ég bara þakka kærlega fyrir innihaldslýsinguna á bakpokanum og the info um vegabréfsáritanir. Málið er að ég hef sett stefnuna á svona ferðalag, og þess vegna var fínt að fá smá hugmynd um hvað maður þarf að hafa með sér :)

  hafið það gott

  kv. Ebba

 3. Kristín Gríms ritaði:

  Er líka ein af þeim sem fylgdist með í laumi en kvittaði aldrei. Var mjög gaman og fræðandi að fylgjast með ykkur.

  Eftir okkar ferð um S-Ameríku langar mig að bæta einu við listann ykkar sem okkur fannst algjört þarfaþing í löngum rútuferðalögum eða biðum eftir þeim: Suduko. Eintaklega tímadrepandi og meðfærilegt. :)

 4. Ásgeir ritaði:

  Vá, ég held ég verði bara heima.

 5. Magni Þór ritaði:

  Sammála Ásgeiri